Fréttayfirlit 14. mars 2016

Fimm ár frá upphafi stríðsins

Borgarastríð hófst í Sýrlandi fyrir fimm árum síðan og hafa SOS Barnaþorpin aðstoðað hundruð þúsunda Sýrlendinga síðan þá, bæði með neyðaraðstoð og í gegnum önnur verkefni. Samtökin hófu þó fyrst starfsemi sína í landinu árið 1981.

Neyðaraðstoð SOS Barnaþorpanna í Sýrlandi hefur aldrei verið umfangsmeiri. Samtökin leggja áherslu á aðstoð við börn, bæði þau sem eru ein á ferð en einnig þau sem eru með fjölskyldum sínum. Ásamt því að vera með tvö SOS Barnaþorp fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn reka samtökin menntamiðstöð í Aleppo og Damaskus, tvö heimili fyrir foreldralaus börn í Damaskus og þrjú barnvæn svæði sem staðsett eru í Damaskus og Aleppo. Þá sinna samtökin matar- og fataúthlutun ásamt því að neyðarteymi samtakanna hefur starfað undanfarnar vikur í þorpinu Madaya sem innikróað var í marga mánuði.

Abeer Pamuk hefur starfað fyrir SOS Barnaþorpin í Sýrlandi í nokkur ár. Hún segir ástandið skelfilegt. „Stríðið hefur áhrif á líf allra í Sýrlandi. Fyrir utan allar sprengingarnar og dauðsföllin þá er það vatnsleysið, rafmagnsleysið, tómu húsin, hræðslan og munaðarlausu börnin sem maður sér og finnur fyrir á hverjum degi.“

starfsmenn SOS að störfum.jpgAbeer segir samskiptin við börn það besta við starfið, en einnig það versta. „Mér finnst sérstaklega erfitt að vinna með börnum sem misst hafa foreldra sína. Mörg þeirra eru svo sterk og ákveðin að ég er ekki í vafa um að þau eigi eftir að vinna úr erfiðleikum sínum eftir að stríðinu lýkur. En það eru líka svo mörg börn sem eru ekki sterk og ég veit að framtíð þeirra veltur algjörlega á því hvernig samfélagið tekur á móti þeim. Því lengur sem þessi börn að lifa í stríðsaðstæðum, því verra. Ekkert barn fæðist ofbeldisfullt eða illgjarnt en þau mótast eftir umhverfinu sem þau alast upp í.“

„Nú þurfum við að hætta að horfa á tölurnar yfir þá sem létust eða eru á flótta og átta okkur á því að þetta eru börn sem hafa misst fjölskyldur sínar, heimili og vini. Það er á okkar ábyrgð að hjálpa þeim og við megum ekki bregðast þeim,“ segir Abeer.

SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa sent yfir tíu milljónir í verkefni samtakanna í Sýrlandi.

Nýlegar fréttir

Héldum að við yrðum drepin
8. jún. 2023 Almennar fréttir

Héldum að við yrðum drepin

Í apríl sögðum við frá rýmingu barnaþorps í höfuðborg Súdan vegna blóðugra átaka í nágrenni þess. Í kjölfarið var þorpið svo hertekið af vopnuðum sveitum og haldar þær enn til í barnaþorpinu.

Umbætur hjá SOS í kjölfar rannsóknarskýrslu
7. jún. 2023 Almennar fréttir

Umbætur hjá SOS í kjölfar rannsóknarskýrslu

Árið 2021 greindum við frá því að niðurstöður tveggja óháðra rannsókna hafi leitt í ljós ýmsa misbresti í stjórnun SOS Barnaþorpanna á alþjóðavísu og í einstaka löndum. SOS Barnaþorpin á Íslandi áttu ...