Börn frá Barnaþorpinu í Damaskus eru ánægð með að komast aftur heim
156 börn sem búa í SOS Barnaþorpinu í Damaskus, Sýrlandi, eru komin til baka í þorpið sitt eftir að hafa þurft að flýja heimili sín þann 27. september síðastliðinn. Sprengjum var varpað á þorpið eftir að fjölskyldurnar höfðu rýmt það en sem betur fer sakaði engan og litlar skemmdir urðu á þorpinu sjálfu.
„Þegar SOS-mæðurnar sögðu börnunum að þau gætu snúið aftur í þorpið urðu þau afar ánægð,“ sagði Rani Rahmo, framkvæmdastjóri SOS í Sýrlandi, aðspurður um málið. „Þau hófu að syngja, hoppa og elta hvert annað. Lítil börn sem skildu ekki hvað væri í gangi hermdu eftir systkinum sínum með klappi og hlátri.“
SOS-mæður hófu strax að útbúa morgunverð þegar komið var í þorpið, til að koma börnunum í skilning um að ástandið væri öruggt. „Við höfum einnig sálfræðing sem vinnur með börnunum,“ sagði Rahmo.
Fjölskyldurnar hófu flutning til þorpsins á föstudaginn 21. október eftir að ýtarleg úttekt hafði verið gerð á öryggi svæðisins. „Aðstæður eru öruggar þessa stundina og vopnaðir hópar hafa farið frá svæðum nærri þorpinu,“ segir Rahmo.
Börnin hafa þó nokkrar áhyggjur af ástandinu í kringum þorpið. „Ég vorkenndi SOS-mömmu minni,“ sagði 13 ára stelpa úr þorpinu þegar hún var spurð út í rýmingu þorpsins í september. „Ég veit að henni leið mjög illa með að vera ekki heima. Hún reyndi að gefa okkur allt en það var afar erfitt fyrir hana. Hún reyndi að láta okkur líða vel þrátt fyrir allar slæmu fréttirnar sem við höfum heyrt undanfarið.“
10 ára strákur úr þorpinu sagði, „ég hef alltaf sagt að ekkert hræði mig. En það breyttist eftir atburðinn í þorpinu og ég vil alls ekki lenda í fleiri átökum í lífinu. Ég vil hafa stöðugleika og frið.“
Þetta er ekki fyrsta rýmingin fyrir nokkur barnanna og starfsfólk þorpsins. Sum þeirra komu til Damaskus frá Aleppo eftir að Barnaþorp SOS þar var rýmt árið 2012.
„Börnin sem komu hingað frá Aleppo voru hissa á að geta snúið aftur heim. Þau voru viss um að það væri ómögulegt og að þau myndu missa þorpið í Damaskus líkt og þau misstu heimili sín í Aleppo,“ sagði Rahmo. „Að snúa aftur gaf þeim nýja von.“
Nýlegar fréttir
SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til.
Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.