Álfaheiði safnaði metupphæð fyrir Ísabellu
Það er árviss viðburður að börnin í leikskólanum Álfaheiði í Kópavogi heimsæki skrifstofu SOS Barnaþorpanna og afhendi árlegt framlag fyrir styrktarbarn leikskólans, Ísabellu, sem er þriggja ára og býr í SOS barnaþorpi í Tansaníu. Börnin í Álfaheiði eru að sjálfsögðu komin í mikið jólaskap og sungu fyrir okkur jólalög sem sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Þá útskýrðu þau fyrir okkur á skeleggan hátt hver Ísabella er og hvað á að gera við peninginn sem þau söfnuðu fyrir hana.
Metupphæð safnaðist í ár eða samtals 76.822 krónur sem er gjörsamlega stórkostlegt hjá börnunum í Álfaheiði. 46.800 krónur er árlegt framlag til Ísabellu og afgangurinn, 30.022 krónur, verður lagður óskertur inn á framtíðarreikning hennar. Þann sjóð fær Ísabella afhentan þegar hún flytur úr barnaþorpinu í framtíðinni og fer að standa á eigin fótum.
Leikskólinn Álfaheiði er fyrsti Sólblómaleikskóli SOS Barnaþorpanna og hefur verið styrktarforeldri tveggja SOS barna frá árinu 2002. Þá gerðist leikskólinn styrktarforeldri Lúkasar sem þá var þriggja ára og bjó í SOS barnaþorpi í Argentínu. Hann er nú orðinn 20 ára, fluttur úr þorpinu og farinn að standa á eigin fótum.
SOS Barnaþorpin þakka öllum á Álfaheiði og öðrum Sólblómaleikskólum kærlega fyrir þeirra góða starf og gjafmildi.
Nýlegar fréttir

Ný fjölskylduefling í Úganda
Ný fjölskylduefling er hafin í Úganda sem fjármögnuð er af SOS Barnaþorpunum á Íslandi og styrktarðilum hér á landi, SOS-fjölskylduvinum. Í Úganda hjálpum við barnafjölskyldum út úr sárafátækt og vinn...

Skólasókn barna í Malaví hefur aukist um 227%
Fjölskylduefling okkar í Malaví hefur gengið vonum framar og barnafjölskyldur í viðkvæmri stöðu hafa orðið sjálfbjarga í meira mæli en væntingar stóðu til um. Skólasókn barna hefur aukist um 227%. Þet...