Fréttayfirlit 7. mars 2022

Afleiðingar stríðs á foreldralaus börn

Afleiðingar stríðs á foreldralaus börn

Stríðið í Úkraínu hefur orðið til þess að mannréttindi milljóna úkraínskra barna eru virt að vettugi. SOS Barnaþorpin hafa verið til staðar fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn í Úkraínu síðan 2003 og það sem við sjáum á vettvangi nú er skelfilegt.

Einkum er ástandið átakanlegt meðal um 160.000 barna sem ekki eiga foreldra á lífi, eða geta ekki búið hjá þeim. Þetta eru t.d. börn á munaðarleysingjaheimilum og hjá fósturfjölskyldum. Mörg þeirra eru á leikskólaaldri og/eða fötluð. Börnin upplifa nú miklar hörmungar, ekki nóg með það að umhverfi þeirra sé sprengt í loft upp, heldur hafa sum þeirra engan fullorðinn til að halla sér að og fá huggun hjá.

Lamað barnaverndarkerfi

Staðreyndin er nefnilega sú að barnaverndarkerfið í Úkraínu hefur lamast í stríðinu. Opinberar stofnanir og heimili fyrir börn eru undirmönnuð og margir starfsmenn hafa látið sig hverfa til að bjarga sjálfum sér og sínum nánustu. Þannig hafa sum börnin verið yfirgefin tvisvar; fyrst þegar þau misstu foreldra sína og síðan þegar umönnunaraðilar þeirra yfirgáfu þau í stríðinu.

Fyrir vikið eru þúsundir barna yfirgefnar á stofnunum og eiga sér litla von um að einhver komi og bjargi þeim. Þau heyra öskrin og sprengingarnar en vita ekki hvenær þau fá næst að borða eða hvort þau lifi daginn af.

SOS reynir að hjálpa sem flestum börnum

Vart þarf að taka fram hve djúp sár munu myndast á sál þessara barna, þ.e.a.s. ef þau lifa af. Okkar sálfræðingar og aðrir sérfræðingar gera sitt besta til að ná til og hjálpa sem flestum börnum, en staðan er vægast sagt erfið.

Rétt er þó að nefna sérstaklega að börnin í SOS barnaþorpinu í Brovary, eru komin í öruggt skjól í Póllandi. Aðgerðir okkar í Úkraínu snúa nú að öðrum börnum, sem ekki eru eins lánsöm.

Heimildir; Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna, SOS Children’s Villages International.

Nýlegar fréttir

SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
13. sep. 2024 Almennar fréttir

SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu

Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til.

Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
10. sep. 2024 Almennar fréttir

Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi

SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.