Ætlar þú að senda styrktarbarninu þínu jólagjöf?
Það þarf að huga að jólagjöfunum snemma, ætli fólk að senda gjafir til útlanda. Þeir styrktarforeldrar sem styrkja börn í Afríku eða Mið-Austurlöndum þurfa að senda gjafir í flugpóst 10 - 14 virkum dögum fyrir jól, en með sjópósti tekur ferðin 8 – 12 vikur eftir löndum. Til Mið- og Suður Ameríku tekur sjópóstur eins 8 – 12 vikur en flugpóstur 8 – 15 virka daga eftir löndum. Flugpóstur til Asíu (utan Mið-Austurlanda) og Austur Evrópu tekur 12-14 virka daga og sjópóstur 8 – 13 vikur. Þó tekur sjópóstur til Úkraínu styttri tíma, eða 4 – 5 vikur.
Hægt er að fá nánari upplýsingar um flutningstíma á vefsíðu Póstsins.
Við minnum einnig á að hægt er að gefa börnunum peningagjafir með því að leggja upphæð inn á framtíðarreikning barnsins í gegnum heimabanka eða inn á minarsidur.sos.is. Gjafaseðlar með upplýsingum voru sendir á alla styrktarforeldra í október.
Við ráðleggjum þeim styrktarforeldrum sem vilja senda börnum sínum gjafir að greiða gjafaseðlana og leggja þannig grunn að fjárhagslegu sjálfstæði barnsins þegar það yfirgefur þorpið. En viljir þú senda pakka til barnsins þá mælum við með litlum gjöfum sem komast fyrir í umslag, s.s. límmiða, hárspennur, ritföng, fatnað o.þ.h.
Það hefur sýnt sig að stórar og dýrar gjafir sem sendar eru með pósti skila sér síður til barnanna. Mörg SOS Barnaþorp eru í löndum þar sem póstþjónustan er dræm og algengt er að pakkar skemmist eða „týnist“. Þá eru víða lagðir háir tollar á slíkar sendingar og kostnaðurinn við að leysa sendinguna út getur orðið meiri en verðmæti innihaldsins. SOS Barnaþorpin hafa ekki tök á að reyna að hafa uppi á póstsendingum sem ekki skila sér í þorpin.
Heimilisföng fyrir gjafasendingar má nálgast á minarsidur.sos.is. Einnig fá styrktarforeldrar heimilsfang sent þegar styrkur við barn hefst.
Nýlegar fréttir
SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til.
Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.