23 milljónum króna af erfðagjöf ráðstafað til háskólamenntunar
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ráðstafað 23 milljónum króna af erfðagjöf til háskólamenntunar ungmenna í Afríku, nánar tiltekið í Rúanda. Ráðstöfunin er samkvæmt óskum Baldvins Leifssonar en erfðagjöf hans er sú stærsta í sögu samtakanna á Íslandi. Baldvin var ókvæntur og barnlaus. Hann lést í maí 2022, áttræður að aldri.
Eignir Baldvins, sem var vél-, renni- og bátasmiður, námu 138 milljónum króna en eftir að kostnaður við dómsmál, sem nam 5,5 milljónum, og skipti dánarbús, sem nam 4,6 milljónum, var frádreginn reyndist arfupphæðin til samtakanna 128 milljónir króna.
Árið 2006 kom Baldvin á skrifstofu SOS Barnaþorpanna og ræddi þá hugmynd sína við þáverandi framkvæmdastjóra, Ullu Magnússon, að stofna námssjóð fyrir börn í SOS barnaþorpum. Ræddi hann m.a. hugmyndir sínar um að stofna sjóð til að styðja við háskólanám munaðarlausra ungmenna. Ekkert varð af þeim hugmyndum svo vitað sé, en Baldvin var styrktaraðili samtakanna um árabil.
SOS Barnaþorpin á Íslandi ákváðu í samræmi við óskir Baldvins að ráðstafa um 23 milljónum af erfðafénu til háskólamenntunar ungmenna í Afríku, nánar tiltekið í Rúanda.

Tekist á um arfinn
Eins og áður segir þurfti dómstóla til að staðfesta að SOS Barnaþorpin væru lögmætur bréferfingi Baldvins. Eftir að Sýslumaður hafnaði beiðni ættingja Baldvins um einkaskipti krafðist ættinginn þess að erfðaskráin yrði úrskurðuð ógild og hann sjálfur myndi erfa eignir Baldvins. Þeirri kröfu ættingjans var hafnað á öllum dómsstigum, hjá Héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti.
SOS Barnaþorpin eru óendanlega þakklát Baldvini fyrir að hafa ráðstafað eigum sínum í þágu bágstaddra barna, enda munu fjölmörg börn njóta góðs af og öðlast betra líf fyrir vikið. SOS Barnaþorpin eru á almannaheillaskrá hjá Skattinum og eru því undanþegin erfðafjárskatti.

Sjá einnig: Stærsta erfðagjöf í sögu SOS Barnaþorpanna
Erfðagjöf
Erfðagjöf

Erfðagjafir hafa gert samtökunum kleift að hjálpa mun fleiri munaðarlausum og yfirgefnum börnum en ella. Sá sem gefur erfðagjöf tekur sjálfur ákvörðun um ráðstöfun eigna sinna í stað þess að eftirláta öðrum þá ákvörðun.
Nánar