Heildarframlög til SOS Barnaþorpanna á Íslandi aldrei verið hærri

Árið 2024 var metár í rekstri SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Heildarframlög styrktaraðila námu samtals 884 milljónum króna og voru tekjur samtakanna 19% hærri en árið á undan, sem þá var einnig metár. Hlutfall rekstrarkostnaðar var með því lægsta sem gerist eða 14,5%. Það þýðir að 85,5% framlaganna, eða 855 krónur af hverju eitt þúsund króna framlagi, renna í sjálft starf samtakanna fyrir umkomulaus og bágstödd börn víða um heim.

88% styrkja koma frá almenningi
Á árinu 2024 styrktu 22.445 einstaklingar og 542 lögaðilar SOS Barnaþorpin á Íslandi, ýmist með mánaðarlegum framlögum, stökum eða bæði. 10.603 Íslendingar voru mánaðarlegir styrktaraðilar í lok árs. Af þeim 884 milljónum sem söfnuðust frá styrktaraðilum kom 88% styrkja frá almenningi eða rúmar 782 milljónir kr. Stærsti hluti af framlögum til SOS á Íslandi kemur frá SOS-foreldrum sem við sendum til barnaþorpa í 107 löndum. Styrktarbörn og styrktarþorp Íslendinga voru alls 9.609 talsins.
Þessi mikli stuðningur er engin nýlunda. Fjöldi Íslendinga hefur stutt dyggilega við hjálparstarf SOS frá stofnun samtakanna hér á landi 1989 og staðið með munaðarlausum og yfirgefnum börnum á erfiðum tímum. Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi
Aðalfundur SOS Barnaþorpanna á Íslandi var haldinn mánudaginn 19. maí sl. og þar voru ársreikningur og ársskýrsla samtakanna kynnt aðildarfélögum samtakanna. Í ársskýrslunni kemur m.a. fram að 65.300 umkomulaus börn og ungmenni eru á framfæri samtakanna í barnaþorpum og annarri sambærilegri umönnun um allan heim.
Ársskýrslan og ársreikningurinn eru aðgengileg hér á heimasíðunni undir flipanum Um SOS / fjármál. Þar má einnig finna ársskýrslur og ársreikninga mörg ár aftur í tímann.

„Svona tækifæri gefst mér bara einu sinni á ævinni“
Í ársskýrslunni er einnig viðtal við Sonam Gangsang sem ólst að stórum hluta upp í SOS barnaþorpi fyrir börn landflótta Tíbetbúa á Indlandi. Hún kom hingað til lands sl. haust í þeim tilgangi að hitta Ingibjörgu Steingrímsdóttur sem styrkti Sonam frá því hún var 6 ára í barnaþorpinu.
Stuðningur Ingibjargar varð til þess að Sonam hefur náð langt í lífinu og gegnir hún mikilvægri stöðu í menntamálaráðuneyti Tíbeta á Indlandi. Margir Íslendingar muna eflaust eftir þeim Sonam og Ingibjörgu enda var ítarleg umfjöllun um hjartnæma endurfundi þeirra í Landanum á RÚV sl. haust.
„Þetta var dásamleg heimsókn. Svona tækifæri gefst mér bara einu sinni á ævinni. Það gladdi mig að sjá hana svona ánægða,“ segir Sonam sem fannst sérstaklega merkilegt að koma inn á heimili Ingibjargar eftir allan þennan tíma.
Sjá einnig: „Þetta var mjög tilfinningaþrungin stund fyrir mig“

Engar breytingar á stjórn SOS
Engar breytingar urðu á stjórn SOS Barnaþorpanna á Íslandi á aðalfundinum. Kristján Þ. Davíðsson er formaður stjórnar og auk hans sitjá í Anna Bjarney Sigurðardóttir, Ingibjörg E. Garðarsdóttir, Ólafur Örn Ingólfsson og Þorsteinn Arnórsson. Varamaður er Svala Ísfeld Ólafsdóttir.

Nýlegar fréttir

Ástandið versnar hratt á Gasa - SOS gefur út yfirlýsingu
Mannúðarástandið á Gasa í Palestínu hefur versnað hratt á síðustu dögum og SOS Barnaþorpin eru meðal hjálparsamtaka sem glíma við hindranir í starfi þar.

Súdanir eygja von í mestu mannúðarkrísu í heimi
Rúmlega 500 manns sneru á dögunum aftur heim til sín með aðstoð SOS Barnaþorpanna í Súdan eftir á annað ár á vergangi. Þó þessir flutningar gefi fólki í landinu von er enn langt í land því innviðir la...