Um SOS

Frá SOS barnaþorpinu Battambang í KambódíuFyrst og fremst eru SOS Barnaþorpin barnahjálp sem veitir munaðarlausum og yfirgefnum börnum staðgengil fyrir þá fjölskyldu sem þau hafa misst. SOS Children´s Villages eru stærstu óháðu hjálparsamtök heims sem einblína á börn án foreldraumsjár og ósjálfbjarga barnafjölskyldur.

Samtökin starfa í 136 löndum, óháð stjórnmálum og trúarbrögðum. Þau ná til yfir einnar milljónar barna, ungmenna og fullorðinna í gegnum meira en tvö þúsundverkefni. Aðaláhersla samtakanna er að börn þrífast best í fjölskylduumhverfi  við ást og umhyggju foreldra eða umsjónarfólks, ásamt systkinum sínum á stað sem þau geta kallað heimili.

SOS Barnaþorpin vinna í nánu samstarfi við samfélög, samstarfsaðila og yfirvöld á hverju svæði fyrir sig í þeim tilgangi að hjálpa ósjálfbjarga barnafjölskyldum og koma í veg fyrir aðskilnað innan þeirra. Þegar nauðsynlegt þykir og talið er vera í hag barnsins er gripið til næstu möguleika sem eru að barnið alist annað hvort upp hjá fósturfjölskyldu eða SOS-fjölskyldu í barnaþorpi.

Umfang barnahjálpar SOS Barnaþorpanna 2020:

Tölur yfir fjölda barnaþorpa og barna í þeim hefur lækkað undanfarin tvö ár. Það kemur til vegna fjölbreyttari úrræða við umönnun barnanna. Aðstoð samtakanna náði til 1,233,600 einstaklinga í 136 löndum árið 2019 sem er 13,6% aukning frá árinu áður.

Starfseining Fjöldi Skjólstæðingar
SOS barnaþorp 541 58,700
Önnur umönnunarúrræði 253 7,100
SOS leikskólar 278 38,800
SOS menntastofnanir 375 229,700
SOS heilsugæslustöðvar 75 677,960
SOS neyðar- og mannúðaraðstoð 31 209,800
SOS fjölskylduefling 580 395,000

„Barn dettur úr hreiðri sínu. Við sjáum því fyrir móður, systkinum og heimili. Gæti ekki verið einfaldara.“
– Hermann Gmeiner stofnandi SOS Barnaþorpanna.

tpa-picture-37868.jpgSOS Barnaþorpin voru stofnuð í Austurríki eftir seinni heimsstyrjöldina árið 1949.

Auk þess að reka 541 barnaþorp um allan heim standa SOS Barnaþorpin fyrir umfangsmiklu forvarnarstarfi sem kallast Fjölskylduefling SOS. Skjólstæðingar Fjölskyldueflingar eru illa staddar barnafjölskyldur og er þeim hjálpað að koma undir sig fótunum og mæta grunnþörfum barnanna. Markmiðið er að börnunum líði vel og koma í veg fyrir aðskilnað þeirra og foreldranna.

Þá reka samtökin fjölda leikskóla, grunnskóla, verknámsskóla, ungmennaheimila, heilsugæslustöðva auk þess að sinna neyðar- og mannúðaraðstoð.

SOS Barnaþorpin starfa óháð trúarbrögðum.

Árið 2007 fengu SOS Barnaþorpin OFID verðlaunin fyrir að vera öflug barnahjálp og stuðla að velferð barna í heiminum. Það er OPEC, samband olíuútflutningsríkja, sem veitir verðlaunin árlega.

Heimsmarkmiðin

SOS Barnaþorpin vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Um er að ræða framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar en með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um heim allan.

Ljóst er að útrýming fátæktar í öllum sínum myndum og umfangi, að með talinni sárafátækt, er stærsta verkefnið á heimsvísu og ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir sjálfbærri þróun. Markmið sjálfbærrar þróunar eru alls 17 og þar að auki 169 undirmarkmið. Með markmiðunum er leitast við að byggja á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og ljúka því sem ekki náðist með þeim.
heimsmarkmid2.png 

SOS Barnaþorpin uppfylla heimsmarkmið númer 1, 4, 8, 10 og 16 að fullu. Þar að auki uppfylla þau markmið númer 3,5 og 17 að hluta.