Veldu dagsetningu
Yfirlit

9. desember

Fuglamatur

Í dag ætlum við að eiga notalega stund saman í eldhúsinu. Maturinn sem við ætlum að útbúa er þó ekki fyrir okkur sjálf heldur litlu fiðruðu vini okkar, fuglana. Það er auðvelt og fljótlegt að útbúa mat fyrir fuglana og því tilvalið að leyfa börnunum að spreyta sig. Svo er líka skemmtilegt fyrir börnin að fylgjast með fuglunum borða matinn sem þau útbjuggu fyrir þá.

Þið þurfið:

  • Mismunandi tegundir af fræjum (sjá hugmyndir hér)
  • Rúsínur
  • Feiti (t.d. kókosolía, tólg)
  • Smá hnetusmjör (valkvætt)
  • Tóm, hrein jógúrt ílát
  • Snæri
  • Trépinna

Framkvæmd:

  • Bræðið feitina (hægt að bæta hnetusmjörinu út í hér)
  • Bætið fræjunum út í
  • Hellið blöndunni í jógúrt ílátin
  • Hnýtið snæri í kringum trépinnana og stingið pinnunum í ílátin áður en blandan harðnar.
  • Setjið inn í ísskáp og leyfið að standa yfir nótt.
  • Dragið jógúrt ílátin varlega af blöndunni. Ef ílátið er fast er hægt að láta smá heitt vatn renna á ílátið og þá ætti það að losna frá.

Hengið matinn upp í tré eða annars staðar þar sem fuglarnir geta komið og nartað í hann.