Fréttayfirlit 4. maí 2015

Nepal: Þrjátíu milljónir á næstu árum

Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna hafa kallað eftir allt að einum og hálfum milljarði króna vegna neyðaraðstoðar í Nepal næstu 3-5 árin. SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa nú þegar ákveðið að senda þrjár milljónir í aðstoðina sem almenningur  á Íslandi hefur gefið í söfnunina. Ásamt öllum þeim sem stutt hafa neyðaraðstoð SOS í Nepal hafa yfir 50 manns óskað eftir að styrkja börn í SOS Barnaþorpum þar í landi. Fyrir jarðskjálftann áttu um 160 Íslendingar styrktarbarn í barnaþorpum í Nepal og því má áætla að á næstu þremur árum munu SOS Barnaþorpin senda yfir 30 milljónir til landsins.

Ótt­ast er að allt að tíu þúsund manns hafi far­ist í jarðskjálft­an­um í Nepal en fjöldi munaðarlausra barna á staðnum fer sífellt hækkandi í kjölfarið.

Sérfræðingar SOS í neyðaraðstoð ásamt  starfsfólki nokkurra barnaþorpa vinna baki brotnu við að sinna brýnustu þörfinni á vettvangi. Ungmennin í barnaþorpunum hafa einnig hjálpað til en neyðaraðstoðin er nú starfandi á sex stöðum í Nepal. Sjö barnaþorp eru innan áttatíu kílómetra frá upptökum skjálftans og því er starfsfólk samtakanna vel í stakk búið til að hjálpa almenningi.

SOS Barnaþorpin hafa sett upp neyðarskýli þar sem slasaðir og heimilislausir geta leitað skjóls ásamt því að matvælum, drykkjarvatni, lyfjum og tjöldum hefur verið dreift. Sérfræðingar samtakanna veita áfallahjálp og fjórtán barnvæn svæði eru starfandi en þangað geta börn komið, stundað nám, leikið sér, fengið áfallahjálp, læknisskoðun, mat o.fl. Þá hafa yfirvöld í Nepal beðið SOS Barnaþorpin um að veita forystu landsnefnd um barnvæn svæði.

Samtökin áforma einnig að byggja að minnsta kosti 300 ný heimili fyrir fjölskyldur sem misstu allt sitt í skjálftanum ásamt því að fjórir opinberir skólar verða endurbyggðir.

SOS Barnaþorpin taka við börnum sem misst hafa foreldra sína eða orðið viðskila við þá í hamförunum. Börnin munu dvelja í SOS Barnaþorpum á meðan leitað er að fjölskyldum þeirra. Beri leitin engum árangri verða fundin önnur úrræði fyrir börnin, t.d. framtíðarheimili í SOS Barnaþorpi.

Hægt er að styðja við neyðaraðstoð SOS Barnaþorpanna í Nepal með því að hringja í síma 907 -1001 (1.000 krónur) og í síma 907 - 1002 (2.000 krónur). Einnig er hægt að millifæra framlag á reikning 334-26-52075, kt.500289-2529 með skýringunni: Nepal. Þá er hægt að gerast styrktarforeldri barns eða barnaþorpsvinur en þá er eitt ákveðið SOS Barnaþorp styrkt.

Nýlegar fréttir

Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu
23. apr. 2024 Almennar fréttir

Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu

SOS Barnaþorpin á Íslandi senda á næstu dögum tíu milljónir króna til SOS í Palestínu vegna neyðaraðgerða á Gaza. Rúmar átta milljónir króna hafa safnast í söfnun SOS á Íslandi sem hófst í febrúar og ...

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna 2024
22. apr. 2024 Almennar fréttir

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna 2024

Boðað er til aðalfundar SOS Barnaþorpanna mánudaginn 13. maí kl.17:30 í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Hábraut 1a (gegnt Gerðasafni). Til þess að félagi geti nýtt félagsleg réttindi sín á aðalfundi s...