04.01 2019

Ólst upp í SOS Barnaþorpi – stofnaði svo barnagæslu

Arnela

Arnela Jusic er 21 árs og ólst upp í SOS Barnaþorpinu í Sarajevo í Bosníu og Hersegóvínu. Hún var að stofna lítið fyrirtæki sem býður upp á barnagæslu.

„Ég ólst upp í barnaþorpinu með börn allt í kringum mig. Fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að mig langaði að starfa með börnum í framtíðinni,“ segir Arnela.

Fyrirtækið sem Arnela var að stofna býður upp á þá þjónustu að foreldrar geta komið með börn sín og skilið þau eftir í stuttan tíma, jafnvel bara hálftíma eða klukkutíma á meðan þeir sinna nauðsynlegum erindum. Starfsmenn eru faglærðir og boðið er upp á öruggt leiksvæði fyrir börnin.

Þá býður fyrirtækið einnig upp á aðstöðu fyrir barnaafmæli eða aðra barnvæna viðburði.

Þess má geta að Arnela fékk faglega aðstoð frá SOS Barnaþorpunum við stofnun fyrirtækis síns, en samtökin hafa undanfarið lagt aukinn metnað í að liðsinna og styðja ungmenni úr barnaþorpum sem vilja komast út á vinnumarkaðinn og stofna eigin fyrirtæki.