Sólblómauppskriftir

Sólblómauppskriftir

Það er nauðsynlegt að fá sér eitthvað gott að borða í Sólblómagleðinni. Hér má finna uppskriftir af mat og drykkjum sem eru auðveldar og smakkast ótrúlega vel.

Heimsins bestu sólblómabollur

300 gr. venjulegt hveiti
300 gr. heilhveiti
5 dl. mjólk
½ teskeið salt
50 gr. ger
2 matskeiðar brætt smjör
100 gr. sólblómafræ

Bræðið smjörið og blandið því saman við mjólkina og leysið gerið upp í vökvanum (sem á að vera ca. 37 gráður). Blandið svo hveitinu og saltinu saman í aðra skál. Blandið svo öllum innihaldsefnunum saman í eina skál. Leyfið deiginu að hefast töluvert, hnoðið það og búið svo til margar litlar bollur. Bakið í ofni í 20 mínútur við 125 gráður. Hægt er að skreyta bollurnar með gulum glassúr. Nammi namm!

Girnilegt sólblómabrauð

50 gr. ger
3 dl. vatn
1 dl. appelsínusafi
½ dl. olía
2 teskeiðar salt
2 epli
100 gr (2 dl.) sólblómafræ
200 gr (3 og ½ dl.) gróft heilhveiti
550 gr (9 dl.) hveiti

Leysið gerið upp í volgu vatni. Bætið við appelsínusafanum, olíunni, saltinu, rifnu eplunum og sólblómafræjunum. Bætið svo við hveitinu og heilhveitinu.

Hnoðið deigið og bætið við svo miklu hveiti að yfirborðið á deiginu er allt út í hveiti. Leyfið því að hefast undir ábreiðu í ca. 1 klst. Mótið þá deigið í brauð og gerið rákir með hníf ofan á brauðinu. Penslið yfir með mjólk og stráið sólblómafræjum yfir. Setjið á bökunarpappír og bakið í ofni í 30-40 mínútur við 200 gráður.

Múslí blanda

2 og ½ dl gróft haframjöl
2 bollar fræblanda
3 teskeiðar hveitiklíð
1 bolli sólblómafræ
1 bolli brytjaðar heslihnetur
1 bolli rúsínur

Setjið haframjölið, fræblönduna, hveitiklíðið, sólblómafræin og heslihneturnar á pönnu og inn í ofn. Ristið blönduna þar við 180 gráður í ca. 10 mínútur. Takið blönduna öðru hvoru út og hristið hana. Þegar blandan er ristuð er rúsínum bætt við. Borið fram með ávöxtum og jógúrti.

Ferðasnakk

2 og ½ dl graskersfræ
1 og ½ dl sólblómafræ
1 og ½ dl valhnetur
2 og ½ dl þurrkaður ananas í bitum.

Blandið öllu saman og setjið í krukku. Hollt og gott snakk!

Eplakaka

2 epli
1 bolli sykur
1 bolli hveiti
1 bolli smjör/smjörlíki
Smá kanilsykur

Eplin eru afhýdd, skorin í mjög þunnar sneiðar og sett í botninn á eldföstu móti. Kanilsykri er stráð yfir eplin. Sykur, hveiti og smjör er sett saman í skál og hnoðað saman með höndunum. Þegar allt er farið að loða saman er deigiið lagt yfir eplin og smá kanilsykri stráð yfir deigið. Bakað við 200 gráður í 30-40 mínútur.

Jarðarberjadrykkur (smoothie) með sólblómafræjum (4 skammtar)

500 gr. jarðarber
2 appelsínur
250 gr. rifsber/hindber
5 dl. hreint jógúrt
1 matskeið hrásykur
Safi úr einni sítrónu
Sólblómafræ

Hreinsið berin. Takið börkinn utan af appelsínunni og skerið hana í báta. Blandið jarðarberjunum, appelsínunni og rifsberjunum/hindberjunum við hluta af jógúrtinu. Geymið eitthvað af berjunum til að skreyta með. Bætið restinni af jógúrtinu, hrásykrinum og sítrónusafanum og blandið saman í blandara. Bætið sólblómafræjum varlega ofan í. Setjið í glös og skreytið með berjum og fræjum.