Sólblómaleikskólar

sólblóm_Suður Afríka.jpgSólblómaleikskólar

SOS Barnaþorpin bjóða leikskólum á Íslandi að gerast Sólblómaleikskólar. Um er að ræða samstarfsverkefni milli SOS Barnaþorpanna og leikskóla á landinu þar sem leikskólabörnin fræðast m.a. um börn í öðrum löndum ásamt því að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað. Hugmyndin að verkefninu kemur frá SOS Barnaþorpunum í Noregi sem hafa yfir 20 ára reynslu af verkefninu. Það var hins vegar árið 2014 sem íslenskum leikskólum bauðst í fyrsta skipti að gerast Sólblómaleikskólar og eru þeir nú 22 talsins.

Sólblómaleikskólarnir geta valið um þrjár leiðir til að styðja við starf SOS Barnaþorpanna: 

  1. Með því að gerast styrktarforeldrar (þá styrkja þeir eitt ákveðið barn í SOS Barnaþorpi)
  2. Með því að gerast þorpsvinir (styrkja eitt ákveðið barnaþorp)
  3. Með söfnun þar sem peningarnir eru nýttir í neyðarverkefni sem SOS Barnaþorpin halda utan um.

Sólblómið er tákn verkefnisins enda eru sólblóm og börn ekki svo ólík, þau þarfnast bæði umhyggju og næringar til að vaxa og dafna.  

Fræðsluefni

Sólblómaleikskólar fá tilbúið fræðsluefni frá SOS Barnaþorpunum sem þeir geta nýtt til að fræða leikskólabörnin um önnur lönd og aðra menningarheima og hversu mikilvægt það sé að bera virðingu fyrir öðrum þó svo að lifnaðarhættir og aðstæður séu öðruvísi en þau þekkja sjálf.

Fræðsluefnið er í formi veggspjalda og myndbanda þar sem mismunandi lönd eru kynnt og saga ákveðinna barna í barnaþorpum sögð. Farið er yfir réttindi barna og börnunum gefst svo tækifæri til að ræða saman um efnið. Einnig er hægt að nálgast uppskriftir og leiki frá ýmsum löndum sem hægt er að kenna börnunum.

SOS Barnaþorpin bjóða einnig upp á kynningar í Sólblómaleikskólum (bæði fyrir börn og starfsfólk/foreldra) og geta einnig tekið þátt í hátíðum og söfnunum sem leikskólinn stendur fyrir.

 

Sólblómagleði og Sólblómahátíð

Á hverju ári standa SOS Barnaþorpin fyrir Sólblómahátíð en þá er Sólblómaleikskólum á höfuðborgarsvæðinu boðið á skemmtun þar sem nokkrir Sólblómaleikskólar hittast og eiga saman góða stund. Einnig er algengt að Sólblómaleikskólar haldi Sólblómagleði einu sinni á ári, hvort sem það er hluti af söfnun þeirra eða ekki. Þá gera leikskólabörnin og starfsmenn leikskólans sér glaðan dag, kynna sér mismunandi menningarheima, mat eða hvað svo sem börnum og starfsfólki dettur í hug.

 Það geta allir leikskólar orðið Sólblómaleikskólar! Reynslan með verkefninu hefur sýnt fram á að þátttaka í því hefur jákvæð áhrif á börnin, þau læri um ólíka menningarheima og venjur og sjá að fjölskyldur geta líka verið mismunandi.

Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Hjördísi fræðslufulltrúa á hjordis@sos.is eða í síma 564-2910.

 

Hér má sjá lista yfir virka Sólblómaleikskóla á Íslandi (tekið saman 4. júní 2019)

Akrasel 300 Akranes

Araklettur 450 Patreksfjörður

Arnarsmári 200 Kópavogur

Álfaheiði 200 Kópavogur

Álfatún 200 Kópavogur

Barnaból 680 Þórshöfn

Brekkubær 690 Vopnafjörður

Efstihjalli 200 Kópavogur

Frístundaheimilið Eldflaugin 105 Reykjavík

Furugrund 200 Kópavogur

Garðasel 300 Akranes

Gefnarborg 250 Garður

Heilsuleikskólinn Krókur 240 Grindavík

Hof 104 Reykjavík

Hulduheimar 600 Akureyri

Kiðagil 600 Akureyri

Kópahvoll 200 Kópavogur

Lækjarbrekka 510 Hólmavík

Rauðaborg 110 Reykjavík

Reynisholt 113 Reykjavík

Sólbrekka 170 Seltjarnarnes

Ösp 111 Reykjavík