Sólblómaleikskólar

A_sunflower.jpg

Sólblómaleikskólar

Hugmyndin að Sólblómaleikskólum er komin frá SOS Barnaþorpunum í Noregi en þau hafa unnið að svipuðu verkefni undanfarin ár.

Fyrir skólaárið 2014-2015 buðu SOS Barnaþorpin á Íslandi leikskólum að gerast Sólblómaleikskólar í fyrsta sinn og í dag eru yfir 25 leikskólar víðsvegar um landið með í verkefninu. Það að vera Sólblómaleikskóli felst í því að leikskólinn styrkir eitt ákveðið barn í SOS Barnaþorpi eða styrkir samtökin á annan hátt, t.d. með söfnun einu sinni á ári.

Sólblómaleikskólar fá tilbúið efni frá SOS Barnaþorpunum, til að mynda plaköt þar sem mismunandi lönd eru kynnt og saga ákveðinna barna í barnaþorpum sögð, stuttmyndir, sólblómafræ til að sá og margt fleira. Fræðsluefnið stuðlar að því að börnin á Sólblómaleikskólum fræðist um börn í öðrum löndum, hvernig þau búa við aðrar aðstæður og hvernig aðstæðurnar eru sambærilegar. Börnin fræðast um önnur lönd og aðra menningarheima og læra hversu mikilvægt það er að bera virðingu fyrir öðrum þó svo að lifnaðarhættir og aðstæður séu öðruvísi en þau þekkja í sínu umhverfi.

SOS Barnaþorpin bjóða upp á kynningar í Sólblómaleikskólum (bæði fyrir börn og starfsfólk/foreldra) og geta einnig tekið þátt í hátíðum og söfnunum sem leikskólinn stendur fyrir.

Algengt er að Sólblómaleikskólar haldi Sólblómagleði einu sinni á ári, hvort sem það er hluti af söfnun eða ekki. 

Reynslan sýnir okkur að þegar leikskólar styrkja eitt ákveðið barn eða taka þátt í hjálparstarfinu á annan hátt hefur það mjög góð áhrif á leikskólabörnin. Þau fræðast um önnur lönd og fólkið sem þar býr ásamt því að sjá hvernig fjölskyldur geta verið mismunandi. 

Ef leikskólinn vill styrkja ákveðið barn kostar það 3.750 krónur á mánuði eða 45.000 krónur á ári. Leikskólar hafa möguleika á að borga mánaðarlega eða einu sinni (eða oftar) á ári. Algengast er að leikskólar borgi einu sinni á ári og safni þá fyrir framfærslunni. Öll upphæðin fer úr landi og nýtist í framfærslu barnsins. Fréttir af barninu berast tvisvar á ári og mynd einu sinni á ári. Þá er hægt að skrifa barninu bréf og senda því gjafir, en það er þó alls ekki skylda.

Þeir Sólblómaleikskólar sem ekki vilja styrkja barn standa fyrir viðburð/skemmtun/söfnun einu sinni á ári þar sem hægt er að kynna sér mismunandi menningarheima, mat eða hvað svo sem börnum og kennurum dettur í hug!

Það geta allir leikskólar orðið Sólblómaleikskólar og frístundaheimili er einnig með í verkefninu!

Frekari upplýsingar í síma 564-2910 eða á sos@sos.is

Listi yfir Sólblómaleikskóla, tekið saman 2.5.2016:

Leikskóli Seltjarnarness

Leikskólinn Barnaból

Leikskólinn Araklettur

Leikskólinn Hamravellir

Frístundaheimilið Dalheimar

Leikskólinn Garðasel

Leikskólinn Vallarsel

Leikskólinn Ásgarður

Leikskólinn Efstihjalli

Leikskóli Álfaheiði

Leikskólinn Sólborg

Leikskólinn Hulduheimar

Leikskólinn Rauðaborg

Leikskólinn Ösp

Leikskólinn Hlíðaból

Leikskólinn Furugrund

Leikskólinn Kiðagil

Leikskólinn Lækjarbrekka

Leikskólinn Brekkubær

Leikskólinn Bjarkatún

Leikskólinn Akrael

Leikskólinn Gefnarborg

Frístundaheimilið Eldflaugin

Leikskólinn Arnarsmári

Leikskólinn Reynisholt