Fyrir styrktarforeldra

HVERS VEGNA STYRKTARFORELDRAR?


tpa_picture_33981.jpgÍ stuttu máli: Vegna þess að þeir bjarga mannslífum og gefa von.

Með því að gerast styrktarforeldri leiðir þú illa statt barn í gegnum æskuárin og sérð til þess að það fái tækifæri sem það annars ætti enga möguleika á. Þú kynnist barninu, færð af því myndir og fréttir og átt þess kost að skrifa því, gefa því gjafir og jafnvel heimsækja það.

Barnið fær að vita að þú hjálpar því og stuðlar að betra lífi þess og þú færð kjörið tækifæri til að segja því frá Íslandi í máli og myndum - ef þú vilt.

Með því að gerast styrktarforeldri barns stígur þú mikilvægt skref. Þetta skref mun breyta lífi barns úti í heimi til hins betra og það mun án efa einnig veita þér ánægju.

Ég vil styrkja barn.

SKYLDUR STYRKTARFORELDRA

Sem styrktarforeldri samþykkir þú að greiða fasta mánaðarlega upphæð til styrktarbarns þíns. Þar með eru skyldur þínar upptaldar.

Þér er ekki skylt að skrifa barninu, senda því gjafir eða hafa samband við það. Margir styrktarforeldrar kjósa hins vegar að mynda tengsl við barnið og reynslan sýnir að slík tengslamyndun hefur jákvæð áhrif á bæði styrktarforeldra og börn.

Þér er frjálst að hætta sem styrktarforeldri hvenær sem er.

BRÉF OG UPPLÝSINGAR FRÁ BARNAÞORPUNUM

tpa-picture-67905.jpgStyrktarforeldrar fá bréf tvisvar á ári frá barnaþorpinu. Fyrra bréfið er yfirleitt sent út á tímabilinu júní – september. Í bréfinu eru upplýsingar um barnið ásamt almennum upplýsingum um barnaþorpið.

Síðla árs fá svo styrktarforeldrar jólakveðju úr barnaþorpinu ásamt fréttum af því helsta sem gerðist í þorpinu það árið. Í flestum tilvikum fylgir kveðjunni ný mynd af barninu hafi hún ekki borist fyrr á árinu.

Auk ofangreindra bréfa fá styrktarforeldrar fréttabréf SOS Barnaþorpanna á Íslandi þrisvar á ári líkt og aðrir styrktaraðilar samtakanna.

Börnunum sjálfum er frjálst að skrifa styrktarforeldrum sínum og sum þeirra (einkum þau eldri) nýta sér þann möguleika.

PERSÓNUVERND

SOS Barnaþorpin leggja mikla áherslu á réttindi barna og persónuvernd. Við getum ekki gefið styrktarforeldrum upp allar upplýsingar um börnin og biðjum styrktarforeldra að sýna því skilning. Þær upplýsingar sem styrktarforeldrar fá um börnin eru eingöngu ætlaðar þeim og þeirra nánustu. Við biðjum styrktarforeldra að miðla þeim upplýsingum ekki til þriðja aðila eða opinbera á netinu eða á annan hátt.

AÐ SKRIFA BARNI


tpa-picture-65730.jpgStyrktarforeldrum er velkomið að skrifa börnum sínum og þykir börnunum alltaf gaman að fá bréf frá útlöndum. Ekki er þó hægt að senda þeim tölvupóst. Hér eru nokkrar hagnýtar upplýsingar viljir þú senda barni þínu í SOS Barnaþorpi bréf.

 • Þegar þú gerðist styrktarforeldri fékkst þú sendar upplýsingar um barnaþorpið og þar kemur fram á hvaða tungumáli bréfið skal vera og hver utanáskriftin er (einnig er hægt að nálgast utanáskriftina inn á Mínum síðum).
 • Utan á umslagið skrifar þú utanáskriftina. Nafn barnsins skrifar þú hins vegar ekki á umslagið heldur aðeins á bréfið sjálft.
 • Best er að hafa bréfin stutt og á einföldu máli.
 • Þú getur skrifað um daglegt líf á Íslandi, fjölskylduna þína, áhugamál og það annað sem þú heldur að barnið gæti haft áhuga á.
 • Hafðu í huga að menningarheimur barnsins er gjörólíkur þínum (í flestum tilvikum). Gildismat, hefðir og lífsgæði á því svæði sem barnið býr á geta því verið mjög frábrugðin því sem Íslendingar eiga að venjast og biðjum við þig að taka tillit til þess.
 • Gaman er fyrir barnið að fá myndir af þér, fjölskyldu þinni, heimili og umhverfi. Hafðu þó í huga að sums staðar geta myndir af fólki í léttum sumarfatnaði virkað illa á fólk.
 • Barnið getur sent þér bréf ef það vill. Þrátt fyrir að sum börn hafi gaman af því að skrifa styrktarforeldrum sínum bréf á það ekki við um öll börn og biðjum við styrktarforeldra að sýna því skilning.

Landsskrifstofa SOS í hverju landi sér um að samræma starf barnaþorpanna og sér til þess að starfsemi þeirra sé í samræmi við alþjóðlegar reglur samtakanna. Landsskrifstofurnar eru tengiliðir þorpanna við styrktaraðila og sjá um þýðingar á bréfum. Þannig minnkum við álag á starfsfólk barnaþorpanna til mikilla muna.

Ég vil styrkja barn.

 PENINGAGJAFIR TIL BARNANNA


tpa-picture-64342.jpgStyrktarforeldrar geta gefið börnum sínum peningagjafir fyrir utan föstu mánaðarlegu greiðslurnar. Margir senda börnum sínum slíkar gjafir þegar þau eiga afmæli, þegar skóla lýkur eða í tengslum við hátíðir, t.d. jól.

Styrktarforeldrar geta haft samband við skrifstofu barnaþorpanna og fengið senda heim gjafagíróseðla sem greiða má í heimabanka eða næsta bankaútibúi.

Einnig má leggja gjafir til barnanna inn á reikning 0334-26-51092, kt.500289-2529. Mikilvægt er að kennitala styrktarforeldris komi fram svo rétt barn fái gjöfina.

Þær peningagjafir sem greiddar eru með gjafaseðlunum fara óskiptar til viðkomandi barns. Peningarnir eru lagðir inn á sparireikning í viðkomandi landi á nafni barnsins og fær barnið svo peninginn þegar það yfirgefur þorpið og fer að standa á eigin fótum.

Þegar styrktarbarni er gefið peningagjöf fær styrktarforeldri sent þakkarbréf frá skrifstofu SOS Barnaþorpanna þar sem staðfest er að gjöfin hafi borist. Bréfið er sent í tölvupósti ef styrktarforeldri er með skráð netfang hjá SOS, annars er bréfið sent í bréfpósti.

Vinsamlegast sendið börnunum ekki peninga í pósti.

PAKKAR TIL BARNANNA

Við ráðleggjum þeim styrktarforeldrum sem vilja senda börnum sínum gjafir að greiða gjafaseðlana og leggja þannig grunn að fjárhagslegu sjálfstæði barnsins þegar það yfirgefur þorpið. En viljir þú senda pakka til barnsins þá mælum við með litlum gjöfum sem komast fyrir í umslag, s.s. límmiða, hárspennur, ritföng, fatnað o.þ.h.

Það hefur sýnt sig að stórar og dýrar gjafir sem sendar eru með pósti skila sér síður til barnanna. Mörg SOS Barnaþorp eru í löndum þar sem póstþjónustan er dræm og algengt er að pakkar skemmist eða „týnist“. Þá eru víða lagðir háir tollar á slíkar sendingar og kostnaðurinn við að leysa sendinguna út getur orðið meiri en verðmæti innihaldsins. SOS Barnaþorpin hafa ekki tök á að reyna að hafa uppi á póstsendingum sem ekki skila sér í þorpin.

HVAÐ VERÐUR UM PENINGAGJAFIR TIL BARNANNA?


tpa_picture_31812.jpgÞegar styrktarforeldri gefur barni peningagjöf fær barnið alla upphæðina inn á eigin bankareikning. Þannig safnast í sjóð sem barnið svo fær þegar það yfirgefur þorpið og fer að standa á eigin fótum.

Barnið getur notað sjóðinn til að fjármagna háskólamenntun sína, til kaupa á íbúð, eða til að koma sér upp eigin atvinnurekstri. Barnið fær góð ráð frá sérfræðingum SOS um hvernig það getur nýtt sér fjármunina þannig að þeir nýtist því sem best í framtíðinni.

HEIMSÓKN Í SOS BARNAÞORP

Styrktarforeldrar geta heimsótt barnið sitt í þorpið. Það er stór dagur í lífi hvers barns þegar styrktarforeldrar þess koma í heimsókn. Styrktarforeldrar eru þó beðnir um að taka eins mikið tillit til barnsins, fjölskyldu þess og allra í þorpinu og kostur er þegar þeir heimsækja þorpið.

UNDIRBÚNINGUR HEIMSÓKNAR

Mikilvægt er fyrir alla aðila að heimsókn styrktarforeldra í þorpið takist sem best. Því biðjum við styrktarforeldra sem huga á heimsókn að láta skrifstofu SOS Barnaþorpanna á Íslandi vita um fyrirhugaða heimsókn með eins mánaðar fyrirvara.

tpa_picture_25850.jpgSkrifstofan veitir þér svo allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir heimsóknina og sér til þess að barnið sé í þorpinu þegar þú kemur og að tekið verði á móti þér. Þú munt einnig fá leiðsögn um þorpið og túlk ef þess þarf. Viljir þú taka með þér gjöf til barnsins eða barnaþorpsins mun skrifstofan afla upplýsinga um hvort einhverjar gjafir séu sérstaklega æskilegar eða óæskilegar.

     VINSAMLEGAST ATHUGIÐ:

 • Styrktarforeldri má ekki yfirgefa þorpið með barninu.
 • Styrktarforeldri getur ekki gist í barnaþorpi. Skrifstofa SOS í viðkomandi landi getur bent á gistimöguleika í nágrenni þorpsins.
 • Starfsfólk barnaþorpsins getur ekki liðsinnt styrktarforeldrum eftir að heimsókn lýkur.
 • Barn í SOS Barnaþorpi getur ekki heimsótt styrktarforeldra sína í útlöndum.
 • SOS Barnaþorpin mega ekki taka á móti skipulögðum ferðum ferðaskrifstofa í þorpin. 

Hér má sjá reglur fyrir gesti í SOS Barnaþorpum sem þeir þurfa að samþykkja fyrir heimsóknina.

ÞEGAR BARNIÐ YFIRGEFUR ÞORPIÐ


tpa_picture_28552.jpgSOS Barnaþorpin eru almennt ábyrg fyrir börnunum í þorpunum þar til þau hafa lokið menntun og geta séð um sig sjálf. Þegar börnin vilja og eru tilbúin til, þá flytja þau að heiman. Yfirleitt flytja börnin úr þorpunum á aldrinum 16-23 ára.

Þar sem svokölluð SOS ungmennaheimili eru til staðar flytja börnin þangað á unglingsárum. Þá búa nokkrir unglingar saman í heimili en njóta leiðsagnar starfsfólks SOS og læra smám saman að fóta sig í lífinu án hjálpar SOS Barnaþorpanna.

Þegar barnið þitt yfirgefur ungmennaheimili eða sjálft barnaþorpið færð þú bréf um það. Flestir styrktarforeldrar vilja taka að sér nýtt barn við slík tímamót og því færð þú tilboð um að taka að þér nýtt barn sem vantar styrktarforeldra. Það er að sjálfsögðu þitt að ákveða hvort þú takir barnið eða ekki, en kjósir þú að taka ekki að þér barnið hefurðu samband við skrifstofu SOS Barnaþorpanna á Íslandi og lætur vita.

FJÁRMÁL

Mánaðarleg framlög styrktarforeldra eru send til alþjóðaskrifstofu SOS Barnaþorpanna í Vínarborg í Austurríki og svo þaðan til viðkomandi lands og þorpa.

SOS Barnaþorpin á Íslandi skila ársreikningi sem samþykktur hefur verið af óháðri endurskoðendaskrifstofu. Ársskýrslur eru sendar til SOS Children´s villages. Það sama á við um allar landsskrifstofur SOS Barnaþorpanna.

PERSÓNUUPPLÝSINGAR


tpa_picture_31280.jpgSOS Barnaþorpin virða persónuverndarlög og vernda því persónulegar upplýsingar styrktarforeldra og SOS barna. Við afhendum þriðja aðila aldrei persónulegar upplýsingar um styrktarforeldra eða SOS-börn og biðjum styrktarforeldra að láta aldrei frá sér persónuupplýsingar um SOS börn sín.

SOS Barnaþorpin búa yfir persónuupplýsingum um styrktarforeldra. Um er að ræða greiðslukortaupplýsingar, símanúmer, netföng og aðrar þær upplýsingar sem auðvelda okkur að koma framlögum þínum til skila og veita þér þjónustu. Nöfn styrktarforeldra eru send bæði landsskrifstofu SOS í viðkomandi landi og alþjóðaskrifstofunni í Vínarborg í Austurríki, en slíkt er nauðsynlegt til að halda utan um hið mjög svo stóra styrktarkerfi SOS Barnaþorpanna.

ER HÆGT AÐ HAFA SAMBAND VIÐ STYRKTARBARNIÐ Á FACEBOOK?

Fjölmargir styrktarforeldrar og sum SOS ungmenni nota samskiptamiðilinn Facebook (FB) en börnum yngri en 13 ára er bannað að vera á FB skv. reglum FB.
Í ljósi síbreytilegs samskiptamynsturs fólks eru SOS Barnaþorpin stöðugt að leita leiða til að nýta tæknina til samskipta og miðlunar upplýsinga án þess að það bitni á persónuvernd barna og styrktarforeldra. En einmitt af slíkum persónuverndarástæðum hafa samtökin ekki opnað fyrir samskipti styrktarforeldra og –barna á FB.
Styrktarforeldrar eru hvattir til að huga að eigin persónuvernd (t.d. hvað varðar heimilisfang og símanúmer) til að hindra óæskileg samskipti (t.d. óskir um gjafir og stuðning frá SOS börnum, vinum þeirra eða ættingjum).
Styrktarforeldrum sem vilja vera í sambandi við styrktarbörn sín er bent á að senda þeim bréf eða jafnvel heimsækja þau ef aðstæður leyfa (sjá ofar á síðunni).

Ég vil styrkja barn.

ER HÆGT AÐ KOMAST Í SAMBAND VIÐ FYRRVERANDI STYRKTARBARN?

Já, slíkt er mögulegt ef „styrktarbarnið“ sjálft hefur einnig á því áhuga. Þá þarf styrktarforeldri að setja sig í samband við skrifstofu SOS Barnaþorpanna á Íslandi og samþykkja að fyrrverandi styrktarbarn fái heimilisfang þess, netfang eða símanúmer. Skrifstofan kannar því næst hvort hægt sé að hafa uppi á „barninu“ og hvort það vilji vera í samskiptum við fyrrverandi styrktarforeldra. Ef áhugi er fyrir hendi er upplýsingum miðlað til beggja aðila sem svo sjálfir sjá um að setja sig í samband.