Lífið í barnaþorpinu

Að flytja í barnaþorp

Þau börn sem eignast ný heimili í SOS Barnaþorpum hafa langflest upplifað mikla erfiðleika á sinni stuttu ævi. Mörg þeirra eru ráðvillt og uppfull af sorg. Smám saman ná SOS mæðurnar og systkinin til nýju barnanna og vinna traust þeirra. Börnin fá sjálfsöryggi og eignast vini.

Oft tekur það langan tíma fyrir sárin á sál lítils barns að gróa, en með öryggi, ást og umhyggju er allt mögulegt.

Eftirfarandi er frásögn SOS móður í barnaþorpi:

Halló, ég heiti Hanne. Ég er SOS móðir. Nýlega bættist í hópinn nýr fjölskyldumeðlimur. Klaus er fimm ára gamall, hann er uppátækjasamur og mjög heillandi lítill strákur! Áður en hann kom til SOS Barnaþorpsins, hafði líf hans verið allt annað en auðvelt. Það mun klárlega taka tíma fyrir hann að jafna sig á þeim hörmungum sem hann hefur upplifað þrátt fyrir ungan aldur og læra að treysta á ný.


tpa_picture_29685.jpgForeldrar Klaus búa nálægt barnaþorpinu, en þau voru ekki fær um að annast hann á þann hátt sem börn þarfnast. Félagsmálayfirvöld höfðu haft mikil afskipti af Klaus og foreldrum hans áður en hann kom til SOS Barnaþorpanna. Það er stefna mín að gera mitt besta til þess að Klaus geti átt sem best samskipti við kynforeldra sína en þó þannig að það komi ekki til með að viðhalda því sálræna tjóni sem hann hefur orðið fyrir.

Stóri dagurinn

Börnin mín, Markus (6), Tania (11) og Anita (13) voru mjög spennt yfir að fá að hitta Klaus, sjá hvernig hann liti út, hvað honum líkaði og mislíkaði, hverjir væru uppáhalds leikirnir hans, hvað hann hefði að segja þeim og fleira í þeim dúr.

Áður en Klaus bættist í fjölskylduna voru hin SOS börnin undirbúin fyrir komu hans. Það er mjög mikilvægt, ekki einungis fyrir Klaus sjálfan, heldur einnig fyrir hin börnin, að fá að vita hvað er í vændum. Börnin voru orðin full tilhlökkunar yfir því að fá loksins að hitta Klaus og töldu niður dagana. Við vorum öll mjög spennt þegar hann gekk inn í stofuna og inn í nýtt líf með nýrri fjölskyldu.

Fyrstu kynnin

Þarna var hann loksins kominn, dálítið feiminn og óöruggur - hver væri það ekki í þessari aðstöðu!?! Eftir að hann hafði farið úr jakkanum, sat hann við eldhúsborðið og hélt fast utan um bolla af heitu súkkulaði, hin börnin þrjú, full af forvitni, gátu ekki lengur haldið aftur af sér og byrjuðu að hella yfir hann spurningum og segja brandara. Þetta var þeirra leið til að sýna honum hversu hamingjusöm þau voru með það að hitta hann loksins og bjóða hann velkominn í fjölskylduna.

Hægt, mjög hægt, byrjaði Klaus að opna sig og svara spurningum þeirra, fyrst með eintómum atviksorðum en svo létti spennunni og svörin urðu lengri. Eftir hálftíma sátu börnin ekki lengur kyrr í sætunum sínum, heldur byrjuðu að sýna Klaus heimilið.

 „Þetta er herbergið þitt, í raun herbergið þitt og Markúsar“, útskýrir Tania. „Þú færð neðri kojuna, Markus hefur þá efri, og herbergið mitt er hérna við hliðina“. Klaus brosti hringinn og sagði: „Er rúmið með fótboltaábreiðunni mitt rúm? Frábært, þetta er nákvæmlega eins fótbolti og mig hefur alltaf langað í!“ „Bingó“, sagði ég við sjálfa mig, „ég hef breytt rétt!“